Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir Íslendinga standa í fyrsta sinn frammi fyrir hugsanlegri frystingu á fjármunum. Þetta staðfesti hún í útvarpsþætti Rásar 2 í morgun.

Þar var hún spurð út í eignarahald eyfirska fyrirtækisins Vélfag sem rússneska útgerðarfélagið Norebo keypti meirihluta í í janúar 2022, skömmu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Í umfjöllun RÚV segir að Norebo sæti viðskiptaþvingunum vegna gruns um að það sé hluti af skuggaflota Rússa sem vinni m.a. skemmdarverk á vestrænum innviðum.

Ísland og Noregur hafa innleitt reglugerð Evrópusambandsins um þvingunaraðgerðir gegn tveimur rússneskum útgerðarfélögum, þar á meðal gegn Norebo JSC. Skip beggja félaga sigla í grennd við landhelgi Íslands, suður- og norðaustur af landinu.

RÚV segir aðgerðirnar beinast að félögum hverra eignahald hefur verið dulið til að komast hjá þvingunum. Skipum félaganna hafi verið meinaður aðgangur að íslenskum og norskum höfnum og eignir þeirra frystar.

Vélfag er í dag skráð í 81% eigu Ivan Nicolai Kaufmann, bankamanns og fjármálaráðgjafa frá Liechtenstein sem býr í Sviss, samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattins. Ríkisútvarpið lýsir honum sem samstarfsmanni Orlov-feðgana, eigenda Norebo.

Þorgerður Katrín vildi ekki tjá sig um einstök mál en staðfesti sem fyrr segir að Íslendingar standi frammi fyrir hugsanlegri frystingu á fjármunum í fyrsta sinn.

„Þetta er eins og ég sagði áðan viðkvæmt og það er að mörgu að hyggja. Það eru gríðarlega miklir heildarhagsmunir fyrir þjóðarbúið undir og við erum að leita líka í smiðju annarra ríkja, ekki síst á Norðurlöndunum, og erum einfaldlega að vinna þá vinnu ákkurat núna,“ hefur RÚV eftir Þorgerði Katrínu.

Fjármálastofnanir taka ákvarðanir um viðskiptaþvinganir í samráði við Seðlabankann og Skattinn, að sögn utanríkisráðherra. Utanríkisráðuneytið fengi hins vegar beiðnir um undanþágu, svo sem til að tryggja launagreiðslur og viðhalda ákveðnum samningum. Þær séu til skoðunar.