Í desember á síðasta ári opnaði KFC sinn tíu þúsundasta veitingastað í borginni Hangzhou, skammt frá Shanghai. Til samanburðar eru ekki nema 4.349 KFC-staðir í Bandaríkjunum.
KFC er einn vinsælasti skyndibitastaður í Kína en sá fyrsti opnaði í Peking árið 1987.
Staðurinn hefur verið vinsæll í Kína alveg frá byrjun en undanfarin ár hefur keðjan verið í mikilli útrás þar í landi. Um 40% af öllum KFC-veitingastöðum í Kína hafa verið byggðir síðan 2019 að sögn Yum China, sem rekur staðina.
Velgengni KFC í Kína skýrist að hluta til vegna fjölbreytni en staðirnir þar selja meira en bara kjúkling. Á veitingastöðum KFC í Kína er til að mynda hægt að kaupa hrísgrjónasúpu, dumplings og eggjatertur.
KFC í Kína hefur, líkt og annars staðar, keppt við McDonalds, Starbucks og Taco Bell í áratugi en veitingakeðjan áttaði sig snemma á mikilvægi þess að aðlaga matseðilinn sinn að bragðlaukum heimamanna.
Árið 1987 var KFC í eigu PepsiCo en drykkjarrisinn á þeim tíma spáði mun meira í samkeppni sína við Coca Cola og hafði minni áhuga á veitingastöðunum sínum. KFC fékk þar með frelsið sem það þurfti til ná til heimamanna.

Önnur ástæða sem liggur að baki velgengninnar er aðgengi en veitingakeðjan hefur verið leiðandi í Kína í stafrænum lausnum. Að sögn fyrirtækisins eru meira en 430 milljónir notendur KFC-smáforritsins og hefur KFC einnig boðið upp á heimsendingaþjónustu nánast alveg frá byrjun.
Árið 2022 námu tekjur KFC í Kína 7,2 milljörðum dala og áætlar fyrirtækið að það muni greiða út þrjá milljarða dala í arð til hluthafa næstu þrjú árin.
Kínverjar hafa einnig verið helteknir af stofnanda staðarins, Colonel Sanders, og er hann til að mynda kallaður afi þar í landi. Í landi þar sem mikil virðing er borin til eldri borgara hjálpaði myndin af honum að gera þennan stað að einum vinsælasta veitingastað í Kína.