Velta íslenska frumkvöðlafyrirtækisins Ceedr, sem áður hét The Engine Nordic og sér um starfræna starfsemi Pipar/TBWA, jókst um 40% frá því á sama tíma á síðasta ári.
Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu endurspeglar þetta þörf fyrirtækja fyrir dýpri þekkingu á stafrænni markaðstækni.
Ceedr er með starfsemi á þremur Norðurlöndum auk Íslands og er vöxturinn mestur í Danmörku og Finnlandi. Starfsemin felst í því að nota nýjustu tækni, hvort sem um ræðir gervigreind eða nýjungar í risatólum eins og Google, Microsoft, TikTok og Meta.
„Til að mynda höfum við stofnað sérstakt tækniteymi eða MarTech Team sem er samansett af gríðarlega reynslumiklum sérfræðingum sem geta veitt dýrmæta ráðgjöf um stefnu, uppsetningu og notkun á markaðstækni til að byggja upp vöxt fyrirtækis til framtíðar. Nokkrar vörur hafa verið í þróun hjá okkur, ein þeirra er notuð til að skilja betur vörumerkjavitund og sýna viðskiptavinum okkar hvar þeir standa í samanburði við keppinauta sína og hvernig þurfi að bregðast við. Þessi vara heitir Ceedr Competitor Index,” segir Hreggviður Steinar Magnússon, framkvæmdastjóri Ceedr.
Samkvæmt Hreggviði er Ceedr í sókn á meðan sambærilegar stofur á Norðurlöndunum hafa þurft að loka vegna erfiðra markaðsaðstæðna í kjölfar Covid og þungrar stöðu í orkumálum.
Metro Service í Kaupmannahöfn, Shibsted Media í Finnlandi, Sprell leikfangaverslun í Noregi og Abbott Pharmaceuticals í Svíþjóð eru dæmi um núverandi viðskiptavini Ceedr.
Skrifstofa Ceedr í Finnlandi var opnuð í vor og á fyrirtækið von á mestum vexti þar á næstu tveimur árum.
„Fjölbreytileiki er það sem Ceedr leitast eftir í sóknartækifærum sínum. Við viljum hafa alla flóruna og sækja nýja markaði. Lykilatriðið er að viðskiptavinir okkar vilji vaxa með tæknibyltingunni með okkar aðstoð,“ segir Hreggviður.
Hjá Ceedr starfa um tuttugu starfsmenn sem þjónusta á sjöunda tug fyrirtækja í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og á Íslandi.