Samkvæmt Hagstofu Íslands dróst velta saman í tæplega helmingi atvinnugreina í maí til júní 2024 og í meirihluta greina var vöxturinn undir verðbólgu tímabilsins, 6,0%.
Af 12 stærstu atvinnugreinum landsins jókst velta umfram verðbólgu í einungis tveimur greinum: fasteignaviðskiptum og tækni- og hugverkaiðnaði.
Í öðrum helstu greinum var einnig mjög lítill vöxtur og minnkaði velta í heildverslun, framleiðslu málma og sölu á vélknúnum ökutækjum.
Raunsamdráttur varð því í flestum atvinnugreinum hagkerfisins í maí og júní.
Velta í fasteignastarfsemi hélt áfram að aukast eða um alls 14% og reyndist 28 milljarðar króna á tímabilinu. Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til leigu atvinnuhúsnæðis en þó var einnig veruleg aukning í fasteignamiðlun.
„Ólíkt undanförnum misserum var ekki sambærilegur vöxtur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð en velta í þeim greinum jókst um einungis 4% á milli ára; 5% vöxtur var í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna, 3% í sérhæfðri byggingastarfsemi og 8% samdráttur í mannvirkjagerð,“ segir í skýrslu Hagstofunnar.
Velta í ferðaþjónustu var sömuleiðis lítil og mældist 189 milljarðar króna sem var einungis 4% aukning miðað við sama tíma árið 2023.
Töluverður vöxtur var þó í farþegaflutningum með flugi sem jókst um 14% en einnig var vöxtur í þjónustu hjá ferðaskrifstofum um ferðalög erlendis sem nam 15%.
„Samdráttur var hins vegar í öðrum einkennandi greinum ferðaþjónustunnar, til dæmis í farþegaflutningum á landi (-14%), rekstri gististaða (-5%), leigu á ökutækjum (-3%) og þjónustu tengdum ferðalögum innanlands (-1%). Velta var óbreytt á milli ára í veitingasölu- og þjónustu.“
Lyfjaframleiðsla eykst gríðarlega
Samhliða öllu þessu var samdráttur í helstu útflutningsgreinum landsins. Velta í framleiðslu málma hélt áfram að dragast saman eða um 8% miðað við sama tímabil fyrir ári. Heimsmarkaðsverð á áli hækkaði örlítið á milli tímabila auk þess sem gengi krónunnar var á svipuðu reiki og árið áður.
Samdráttinn í veltu álfyrirtækja mátti því heldur rekja til minni magnsölu. Þá dróst velta í sjávarútvegi saman um rúmlega 2% (50% vöxtur var í fiskeldi miðað við fyrra ár en vegna smæðar fiskeldis miðað við sjávarútveg var samanlögð aukning veltu í sjávarútvegi og fiskeldi einungis tæplega 1%).
Í tækni- og hugverkaiðnaði var jákvæður raunvöxtur eins og í fasteignastarfsemi en alls jókst velta um 8% í tæknigreinunum miðað við fyrra ár. Þrátt fyrir ágætan heildarvöxt var dreifingin innan atvinnugreinahópsins misjöfn.
Mest jókst velta í meðal- og hátækniframleiðslu, eða um 20%, sem mátti einkum rekja til aukinnar lyfjaframleiðslu og framleiðslu á tækjum og vörum til lækninga. Samdráttur upp á 24% var hins vegar í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum.
Sala á vélknúnum ökutækjum hélt áfram að dragast saman eða um 36% (29% séu viðhald og viðgerðir ökutækja talin með).
Samdráttur var einnig í heildverslun um 2% sem rekja mátti til minni virkni í byggingarstarfsemi en alls dróst velta saman um 4% í heildverslun með timbur og byggingarefni og um 7% í heildverslun með járnvöru og lagnavörur.
Smásöluverslun óx ögn betur eða um 5% þar sem velta hjá stórmörkuðum, matvöru- og lyfjaverslunum jókst nokkurn veginn í samræmi við verðbólgu, eða á bilinu 6-7%. Samdráttur upp á 2% var hins vegar hjá sérverslunum með fatnað og skó.
Loks var óbreytt velta hjá byggingavöruverslunum (sem jafngilti neikvæðum raunvexti upp á -6%).