Minni velta var í flestum atvinnugreinum í mars og apríl en á sama tímabili árið áður. Mest lækkun var hjá ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum eða um 76,6% samdráttur frá fyrra ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar .
Velta hjá gististöðum og veitingarekstri dróst saman um 54,4% milli ára. Velta hjá bílaleigum lækkaði um 41% og um 33% samdráttur var í olíuverslun. Velta smásala jókst hins vegar um 4,7% milli ára.
Mesta aukning í veltu á tímabilinu mars-apríl var í upplýsingatækni og fjarskiptum en velta í þeim geira jókst um 12,5%. Hækkun á milli ára í þessari atvinnugrein er vegna hækkunar tveggja undirflokka: „Framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni; hljóðupptaka og tónlistarútgáfa“, sem jókst um 89%, og „Þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni“ sem hækkaði um 18%.
Í nokkrum þessara greina er velta háð gengi en gengisvísitalan hækkaði um 11% milli ára, þ.e. frá mars-apríl 2019 til sama tímabils 2020.