Fjarskiptafélagið Hringdu hagnaðist um tæplega 11 milljónir króna á síðasta ár sem er mjög svipað og árið 2020. Árið 2019 hagnaðist Hringdu um 24 milljónir en árið 2018 varð 15 milljóna tap af rekstrinum.

Árið 2018 nam velta félagsins 1,1 milljarði en síðan þá hefur hún aukist jafnt og þétt. Á síðasta ári var veltan komin í ríflega 1,6 milljarð, sem er 16% aukning frá árinu 2020. Eignir félagsins námu 395 milljónum króna um síðustu áramót og eigið fé nam ríflega 57 milljónum. Skuldir félagsins jukust úr 314 milljónum í 337 milljónir á milli ára.

Hringdu er minnsta félagið á íslenska fjarskiptamarkaðnum. Risarnir á markaðnum eru Síminn og Sýn en bæði þessi félög voru með yfir 24 milljarða króna veltu á síðasta ári. Þess ber þó að geta að félögin tvö eru einnig í fjölmiðlarekstri. Nova er svo þriðja stærsta fjarskiptafélagið hér á landi en velta þess nam 13 milljörðum króna í fyrra. Til að setja stærð Hringdu í frekara samhengi þá voru ársverk félagsins 37 á síðasta ári. Til samanburðar voru þau um 460 hjá Sýn, 308 hjá Símanum og 147 hjá Nova.

Hringdu greiddi engan arð til hluthafa í fyrra. Félagið Dvorzak Island ehf. á tæplega 75% hlut í Hringdu en aðrir eigendur eru Játvarður J. Ingvarsson, framkvæmdastjóri félagsins, með um 16%, Reynir Ó. Pálmason á um 7,5% og Helgey ehf. með tæp 2%. Helgey er í eigu Ingvars Ingvarssonar og Helgu Hrannar Þorleifsdóttur.

Dvorzak Island er í eigu Jóns von Tetzchner fjárfestis í gegnum félagið Vivaldi Invest AS. Þess má geta að Dvorzak Island á m.a. 41% hlut í mjólku- og ostaframleiðandanum Örnu og 18% í OZ Sports, sem á undanförnum árum unnið að þróun á íþróttavélbúnaði sem inniheldur upptökubúnað sem krefst ekki tökumanna.

Lykiltölur / Hringdu

2021 2020
Tekjur 1.639 1.415
Hagnaður 10,7 11,2
Eignir 395 361
Eigið fé 57 47
- í milljónum króna