Velta á íslenska skuldabréfamarkaðnum nam 22 milljörðum króna í dag. Dagleg velta á skuldabréfamarkaðnum var síðast meiri þann 18. mars 2020. Til samanburðar var dagleg meðalvelta í síðasta mánuði 8,5 milljarðar króna.
Ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum féll um 11-18 punkta í viðskiptum dagsins. Ávöxtunarkrafa á verðtryggðum ríkisbréfum lækkaði um 3-7 punkta.
Ávöxtunarkrafa á tveggja ára bandarískum ríkisbréfum hefur lækkað verulega undanfarna daga. Í síðustu viku fór hún yfir 5% í fyrsta sinn frá árinu 2007 en aftur komin undir 4,2%.
Fjárfestar sækjast nú í auknum mæli í öruggari verðbréf eftir lækkanir á hlutabréfamörkuðum síðustu daga. Einnig eru væntingar um að Seðlabanki Bandaríkjanna neyðist til að hægja á vaxtahækkunarferli sínu vegna stöðunnar í bankageiranum.
Úrvalsvísitalan féll um 1,6%
Miklar lækkanir voru á íslenska hlutabréfamarkaðnum en Úrvalsvísitalan féll um 1,6% í 3,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaðnum. Hlutabréf ellefu félaga aðalmarkaðarins féllu um 2% eða meira, þar á meðal bréf Íslandsbanka, Alvotech, Skeljar og Kviku.
Sambærileg þróun var á evrópskum mörkuðum í dag en hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 féll um 2,2% og enska vísitalan FTSE 100 um 2,4%. Hlutabréf banka leiddu lækkanir, sem má einkum rekja til falls Silicon Valley Bank og Signature Bank í Bandaríkjunum.