Verð á dísil­olíu hefur hækkað um meira en 40% í bæði Banda­ríkjunum og Evrópu frá því í maí þegar Sádi-Arabía og önnur OPEC+ olíu­ríki á­kváðu að draga úr fram­leiðslu, sam­kvæmt gögnum frá Argus en The Wall Street Journal greinir frá.

Fram­virkir samningar með Brent-hrá­olíu og Vestur-Texas olíu hafa hækkað um 13% og 14% á sama tíma­bili.

Neyt­endur eru nú þegar byrjaðir að finna fyrir þessum hækkunum við dæluna en búast má við því að olíu­verð muni hækka enn frekar þar sem Rúss­land og Sádi-Arabía ætla halda á­fram að draga úr fram­leiðslunni.

Verðhækkanir við dæluna heima

Sam­kvæmt Gas­vaktinni hefur dísil­olía hækkað úr 310 krónum í 316 krónur sl. mánuð hjá N1.

Dísilolían hefur farið úr 309 í 311 kr. hjá Orkunni. Dísil­olía hjá Costco er enn þá langó­dýrust en verðið við dæluna hefur samt hækkað úr 274 í 277 krónur sl. mánuð.