Heimsmarkaðsverð á kakóbaunum hefur hækkað um tæplega 5% í dag og er nú komið yfir 12 þúsund dali á tonnið. Verðið hefur meira en tvöfaldast í ár.

Verulegir þurrkar hafa leitt af sér laka uppskeru í Gana og á Fílabeinsströndinni, stærstu framleiðendum kakóbauna í heiminum.

Í umfjöllun WSJ segir að áhyggjur um að uppskeran á Fílabeinsströndinni á yfirstandandi uppskerutímabili verði verri en gert var ráð fyrir hafi aukist, á sama tíma og heimsframboð sé í sögulegum lægðum.

Þurrviðri í Vestur-Afríku gæti haft neikvæð áhrif á uppskeru á komandi mánuðum. Vindar frá Sahara eyðimörkinni yfir Harmattan tímabilið, frá desember til mars, gæti gert stöðuna enn verri. Þá sé markaðsverð með kakóbaunir mjög viðkvæmt eins og er vegna lágrar birgðastöðu.