Verð á rafmyntum rauk upp á sunnudaginn eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að Bandaríkin muni stofna gjaldeyrisforða úr rafmyntum. Forðinn mun innihalda bæði Bitcoin og Ether, auk þriggja smærri og áhættusamari gjaldmiðla.
„Bandarískur rafmyntaforði mun lyfta þessari mikilvægu iðngrein eftir ár af spilltum árásum Biden-stjórnarinnar,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social. „Ég mun tryggja að Bandaríkin verði höfuðborg rafmynta í heiminum.“
Samkvæmt yfirlýsingu forsetans munu Solana, XRP og Cardano einnig verða hluti af forðanum.
Ólíkt Bitcoin, sem er elsta og stærsta rafmyntin, hafa þessar rafmyntir verið þróaðar af smærri teymum og eru því taldar viðkvæmari fyrir sveiflum og áhættu.
Eftir tilkynninguna hækkaði Bitcoin um 9% á einum sólarhring og fór í um 93.000 dali. Ether hækkaði um 11% í 2.500 dali, Solana rauk upp um 20% í 169 dali, XRP hækkaði um 30% í 2,80 dali og Cardano meira en tvöfaldaðist, hækkaði um nær 60% í 1,02 dali.
Hækkunin kemur í kjölfar tímabundins lækkunarskeiðs, þar sem Bitcoin hafði fallið niður fyrir 80.000 dali í síðustu viku eftir að hafa verið við 109.000 dali á innsetningardegi forsetans.
Netárás á rafmyntaskiptamarkaðinn Bybit hefur verið að hafa neikvæð áhrif á markaðinn nýverið en um er að ræða stærsta rafmyntahnupl sögunnar.
Óljós framkvæmd en mikil eftirvænting
Samkvæmt The Wall Street Journal er með öllu óljóst hvernig slíkur gjaldeyrisforði verður myndaður eða hvaða ávinning hann gæti haft fyrir bandarískt efnahagslíf.
Sumir sérfræðingar telja að einn möguleiki sé að bandarísk stjórnvöld haldi eftir Bitcoin sem hefur verið gert upptækt af netglæpamönnum og myrkum markaðssíðum. Bandaríkin eiga nú um 180.000 Bitcoin, sem er metið á um 18 milljarða dala miðað við núverandi gengi, samkvæmt gögnum frá 21.co.
Trump hefur á síðustu misserum tekið aukinn þátt í rafmyntageiranum og skipaði nýverið sérstakan vinnuhóp um stafræna eignamarkaði. Hann hefur einnig veitt sakaruppgjöf Ross Ulbricht, stofnanda Silk Road, sem notaði Bitcoin sem greiðslumiðil.
Ráðstefna um rafmyntir í vændum
Fyrsta ráðstefnan um rafmyntir á vegum Hvíta hússins mun fara fram á föstudaginn, þar sem Trump mun flytja opnunarávarp.
Ráðstefnan verður leidd af David Sacks, sem nýlega var skipaður yfirmaður gervigreindar- og rafmyntarmála hjá forsetanum, og verður hún sótt af forsvarsmönnum, stofnendum og fjárfestum í rafmyntageiranum.
Þessi þróun markar enn eitt skrefið í auknum áhuga bandarískra stjórnvalda á rafmyntum og gæti haft mikil áhrif á framtíðarstöðu Bandaríkjanna í þessum ört vaxandi iðnaði.