Gervigreindarfyrirtækið OpenAI, sem fer fyrir ChatGPT, hefur dregið til baka áform um að hluti fyrirtækisins yrði rekinn í hagnaðarskyni en áformin höfðu sætt harðri gagnrýni, meðal annars frá Elon Musk sem var meðstofnandi fyrirtækisins.
Fyrirtækið sjálft hefur verið óhagnaðardrifið frá stofnun en hagnaðardrifið dótturfyrirtæki OpenAI hefur síðustu ár séð um að sækja fjármagn fyrir tækniþróun og lauk nýverið 40 milljarða dala fjármögnunarlotu.
Bloomberg hefur eftir Sam Altman, forstjóra OpenAI, að fyrirtækið muni áfram ná að laða til sín fjárfesta þó að það verði óhagnaðardrifið. Það væri óneitanlega auðveldara ef OpenAI myndi starfa eins og hefðbundið hagnaðardrifið fyrirtæki en að tilgangurinn skipti meira máli.