Fyrsta mál sem lagt var fram á 154. löggjafarþingi var fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 og voru lögin samþykkt um miðjan desember 2023. Þegar þáverandi fjármálaráðherra kynnti fjárlögin var gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs yrði 46 milljarðar króna árið 2024 en með ýmsum breytingum nemur áætlaður halli 51 milljarði í samþykktum fjárlögum.
Frá þeim tíma hafa þó fjögur frumvörp til fjáraukalaga verið lögð fram sem hafa áhrif. Tvö frumvörp til fjáraukalaga 2024 hafa verið samþykkt en þau snúa bæði að náttúruhamförum á Reykjanesi.
Fyrsta frumvarpið kvað á um 7,4 milljarða auknar fjárheimildir í ýmsum liðum vegna Grindavíkur en sama upphæð dregin frá almennum varasjóði og áhrifin því metin hlutlaus gagnvart afkomu ríkissjóðs. Endanleg upphæð í fjáraukalögum var 8,2 milljarðar. Annað frumvarpið kvað á um stofnun fasteignafélagsins Þórkötlu og heimild ríkissjóðs til að taka allt að 30 milljarða króna lán til viðbótar við áður samþykkta lántöku.
Tvö frumvörp til viðbótar bíða enn afgreiðslu innan þingsins. Nýjasta frumvarpið snýr sömuleiðis að náttúruhamförum á Reykjanesi og stuðningsaðgerða vegna þeirra en lagt er til að auka fjárheimildir um 6,3 milljarða. Þá bíður enn frumvarp vegna aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þar sem kveðið er á um 12,9 milljarða aukningu fjárheimildar.
Heildargjöld ársins 2024 eru samkvæmt nýjasta frumvarpinu áætluð 11 milljörðum meiri en í áætlun fjárlaga en á móti er gert ráð fyrir minni verðbólgu. Þá eru heildartekjur áætlaðar 11 milljörðum meiri, einna helst vegna hærri arðgreiðslu frá Landsvirkjun. Nú er gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði 52 milljarðar króna á árinu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.