Stjórnarflokkarnir hafa undanfarna daga fundað um hvaða þingmál er raunhæft að ná utan um, bæði þegar kemur að umfangi og afstöðu annarra stjórnarflokka. Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir þá vinnu á lokametrunum.

„Við sjáum fyrir endann á þessu og við munum klára meira en minna. En við erum bara í þessari lokaskoðun, hvernig þetta mun endanlega líta út þó að við séum langt komin með það.“

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti þingfrestun að fara fram næstkomandi föstudag en Hildur segir ljóst að það gangi ekki eftir, enda mikilvæg mál sem standa eftir. Einhverjir dagar eða vika til eða frá skipti þó ekki höfuðmáli.

„Ég get staðfest það að við náum ekki að klára þingið hérna á föstudaginn, enda kannski sjaldgæft að starfsáætlunin haldist upp á punkt og prik hvað það varðar, en við höfum líka sagt það að við munum vera hér eins lengi og þarf. Við erum með fókusinn á að ná að vinna málin vel til að sómi sé af fyrir samfélagið og það er það sem við einblínum á.“

Þó endanlegur listi yfir mál sem stjórnarflokkarnir stefna á að klára fyrir þingfrestun liggi ekki fyrir nefnir Hildur nokkur áherslumál, þar á meðal útlendingamálin og raforkumálin auk frumvarps fjármálaráðherra um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og frumvarp félagsmálaráðherra um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins.

Um ýmis önnur mál er meiri óvissa sökum umfangs, þar á meðal lagareldisfrumvarp matvælaráðherra, og tæknilegra atriða, þar á meðal frumvarp um slit ÍL-sjóðs. Þá eru dæmi um mál sem stjórnarflokkarnir eru ekki á sömu línu um, þar á meðal lögreglufrumvarp dómsmálaráðherra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.