Hreiðar Már Her­manns­son, verðandi for­stjóri Eikar fast­eignafélags hf., hefur í gegnum einka­hluta­félagið Lausa­mjöll ehf. keypt hluta­bréf í félaginu fyrir 12,7 milljónir króna.

Sam­kvæmt til­kynningu til Kaup­hallarinnar keypti Hreiðar 1.000.000 hluti í Eik á genginu 12,70 krónur á hlut. Gengi Eikar stendur í 12,5 krónum um þessar mundir eftir um 2,5% hækkun í við­skiptum dagsins.

Við­skiptin fóru fram á aðal­markaði Kaup­hallarinnar og eru til­kynnt sam­kvæmt 19. grein MAR-reglu­gerðarinnar um við­skipti inn­herja og tengdra aðila.

Lausa­mjöll ehf. er 100% í eigu Hreiðars Más, sem tekur form­lega við for­stjórastöðu Eikar á næstunni en hann tekur við starfinu af Garðari Hannesi Friðjóns­syni sem stýrt Eik undan­farin 22 ár.

Hreiðar Már er með B.A.-gráðu í fjár­málum frá London South Bank Uni­versity Business School og M.Sc.-gráðu í fjár­málum, fjár­festingum og banka­starf­semi frá sama skóla.

„Við erum afar ánægð með að fá Hreiðar Má til liðs við okkar öfluga félag og hlökkum til sam­starfsins. Við teljum að reynsla hans og framtíðarsýn muni styrkja stöðu félagsins á markaði og styðja við áfram­haldandi arðbæran vöxt og þróun þess,“ sagði Bjarni K. Þor­varðar­son, stjórnar­for­maður Eikar fast­eignafélags, eftir ráðningu Hreiðars.