Hreiðar Már Hermannsson, verðandi forstjóri Eikar fasteignafélags hf., hefur í gegnum einkahlutafélagið Lausamjöll ehf. keypt hlutabréf í félaginu fyrir 12,7 milljónir króna.
Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar keypti Hreiðar 1.000.000 hluti í Eik á genginu 12,70 krónur á hlut. Gengi Eikar stendur í 12,5 krónum um þessar mundir eftir um 2,5% hækkun í viðskiptum dagsins.
Viðskiptin fóru fram á aðalmarkaði Kauphallarinnar og eru tilkynnt samkvæmt 19. grein MAR-reglugerðarinnar um viðskipti innherja og tengdra aðila.
Lausamjöll ehf. er 100% í eigu Hreiðars Más, sem tekur formlega við forstjórastöðu Eikar á næstunni en hann tekur við starfinu af Garðari Hannesi Friðjónssyni sem stýrt Eik undanfarin 22 ár.
Hreiðar Már er með B.A.-gráðu í fjármálum frá London South Bank University Business School og M.Sc.-gráðu í fjármálum, fjárfestingum og bankastarfsemi frá sama skóla.
„Við erum afar ánægð með að fá Hreiðar Má til liðs við okkar öfluga félag og hlökkum til samstarfsins. Við teljum að reynsla hans og framtíðarsýn muni styrkja stöðu félagsins á markaði og styðja við áframhaldandi arðbæran vöxt og þróun þess,“ sagði Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður Eikar fasteignafélags, eftir ráðningu Hreiðars.