Verðbólga á evrusvæðinu mældist 10,7% í október, samkvæmt gögnum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Verðbólgan hefur aldrei mælst meiri í 23 ára sögu evrunnar, en um er að ræða tólfta mánuðinn í röð sem hún eykst.

Verðbólgan var talsvert yfir spám hagfræðinga sem Reuters leitaði til en þeir gerðu ráð fyrir 9,8% verðbólgu.

Orkuverð jókst um 41,9% á milli ára samkvæmt mælingum Eurostat fyrir októbermánuð en til samanburðar mældist árshækkun orkuverðs 40,7% í september. Þá hækkaði verð á matvælum, áfengi og tóbaki um 13,1% á milli ára.

Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 5,0% í október, samanborið við 4,8% í september.

Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 0,75 prósentur, upp í 1,5%, í síðustu viku og varðaði við frekari vaxtahækkunum.