Verðbólga á evrusvæðinu tók kipp í nóvembermánuði og mældist 2,3% samanborið við 2,0% í október, samkvæmt nýbirtum tölum Eurostat. Verðbólgan er því aftur komin upp fyrir 2,0% verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu.
Verðbólgumælingin var í samræmi við spár hagfræðinga. Rekja má hækkunina að mestu leyti til þess að tölur fyrir nóvember 2023, sem voru óvenju lágar, hafi fallið út úr tólf mánaða mælingunni.
Undirliggjandi verðbólga, sem Seðlabanki Evrópu horfir hvað mest til við vaxtaákvarðanir, var óbreytt í 2,7%. Árstaktur þjónustuliðar vísitölu neysluverðs lækkaði lítillega og mældist 3,9% samanborið við 4,0% í október.
Í umfjöllun Reuters segir að verðbólgumælingin breyti lítið horfum um að verðbólgan sé smám saman að færast niður í markmið seðlabankans. Því sé áfram gert ráð fyrir að Selabanki Evrópu muni lækka vexti á næstunni. Helsta spurningin sé hins vegar hvort bankinn lækki vexti um 25 eða 50 punkta við næstu vaxtaákvörðun þann 12. desember.