Verðbólga á evrusvæðinu jókst í desembermánuði og mældist 2,4% samanborið við 2,2% í nóvember, samkvæmt nýbirtum tölum Eurostat. Verðbólgutölurnar voru í samræmi við spár hagfræðinga.
Þrátt fyrir að verðbólgan hafi fjarlægst frekar 2% verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu, þá er ekki talið að verðbólgumælingin muni ráða peningastefnunefnd bankans frá því að lækka stýrivexti frekar og styðja þannig við evrópska hagkerfið, að því er segir í umfjöllun The Wall Street Journal.
Almennt er búist við annarri vaxtalækkun hjá bankanum í lok janúar. Markaðsaðila telja hins vegar að líkur á 50 punkta lækkun hafa minnkað í ljósi þess að verðbólgutölur í Þýskalandi og Spáni voru yfir spám hagfræðinga.
Seðlabanki Evrópu lækkaði stýrivexti sína fjórum sinnum á síðasta ári, úr 4,0% í 3,0%.
Verðbólguspár seðlabankans gera ráð fyrir að verðbólgan dragist saman í ár með dvínandi áhrifum orkuverðs. Viðvarandi þjónustuverðbólga er þó áfram áhyggjuefni fyrir bankann en hún mældist 4,0% í desember, samanborið við 3,9% í nóvember. Þá er atvinnuleysi áfram í lægstu lægðum á evrusvæðinu og mældist 6,3% í nóvember, samkvæmt nýbirtum tölum.