Verðbólga á evrusvæðinu heldur áfram að ná nýjum hæðum en hún mældist 8,6% í júní sem er 0,5 prósentustigum hærra en í síðasta mánuði. Verðbólgan var umfram spár hagfræðinga sem Reuters leitaði til en þeir höfðu að meðaltali spáð því að hún færi upp í 8,4%.
Orkuverð á evrusvæðinu hélt áfram að hækka, m.a. vegna skerðingar Rússlands á jarðgasi, og hefur nú hækkað um 42% frá sama tíma í fyrra. Þá hefur verð á matvælum, áfengi og tóbaki hækkað um 8,9% á milli ára.
Kjarnaverðbólga (e. Core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum hjaðnaði lítillega á milli mánaða og mældist 3,7% í júní samanborið við 3,8% í maí.
Sjá einnig: ECB ætti að hækka vexti frekar
Christine Lagarde, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði fyrr í vikunni að bankinn hyggist halda sér við þau áform að hefja vaxtahækkunarferli með 0,25 prósentu vaxtahækkun þann 21. júlí næstkomandi. Von er á stærra skrefi í september, að því er kemur fram í frétt Financial Times.