Verðbólga á evrusvæðinu hjaðnaði fjórða mánuðinn í röð og mældist 8,5% í febrúar samanborið við 8,6% í janúar. Verðbólgan var þó nokkuð yfir væntingum hagfræðinga, sem áttu von á að hún yrði nær 8,2% samkvæmt könnun Reuters.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, jókst hins vegar frá fyrri mánuði og náði nýjum hæðum í 5,6%. Til samanburðar var kjarnaverðbólgan í 5,3% í janúar.

Í umfjöllun Financial Times segir að verðbólgutölurnar ýti undir væntingar um að Seðlabanki Evrópu muni hækka vexti í nokkur sinnum til viðbótar í ár. Bankinn, sem hefur hækkað vexti um 300 punkta frá því í júlí, hefur þegar lýst því yfir að hann hyggist hækka vexti um hálfa prósentu í þessum mánuði.

Verðlagning á fjármálamörkuðum gefi til kynna að fjárfestir eigi von á að stýrivextir Seðlabanka Evrópu fari upp í 4% í ár en þeir standa nú í 2,5%.