Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri Íslands segir Íslendinga ekki gera sér almennilega grein fyrir muninum á verðbólgu á Íslandi og í Evrópu en þróun efnahagsmála hérlendis og erlendis hefur verið mjög mismunandi eftir heimsfaraldurinn.
Íslenska hagkerfið hefur til að mynda vaxið um 20% á síðustu þremur árum sem er að sögn Ásgeirs „einstakur vöxtur.“
„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því að í flestum löndum Evrópu er efnahagslífið ekki búið að ná sér eftir Covid. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því að verðbólguskellurinn sem kom eftir Covid hefur leitt til varanlegrar lækkunar launa í löndum eins og Svíþjóð og Þýskalandi,“ sagði Ásgeir á peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun.
Hann bætti jafnframt við að í mörgum Evrópulöndum væri í raun neikvæður hagvöxtur.
„Á sama tíma hafa laun hækkað gríðarlega. Eitt sem ég undrast alltaf með Íslendinga, eins fá og við erum, er hvað við erum þó oft lokuð inn í okkar eigin hugmyndarheim. Því þessi umræða um laun í útlöndum eða samkeppnishæfni landsins kemur eiginlega aldrei fram í kjarasamningsviðræðum eða umræðunni. Þetta snýst alltaf um einhverjar launaleiðréttingar og hver eigi eitthvað skilið.“
„Þegar fólk biður um hærri laun og þá kemur röð, eins og við sjáum núna með eina ónefnda stétt, og segir hvað starfið sé erfitt og auðvitað eiga þau að fá launahækkun. Hins vegar er það þannig að við getum ekki farið fram á hærri laun heldur en þjóðirnar í kring. Við erum samt sem áður að fá miklu meiri launahækkanir en þær, og það er gömul saga og ný. En þetta skapar ákveðna erfiðleika,“ sagði Ásgeir á fundinum.
„Við berum okkur saman við Skandinavíu þegar það hentar“
Hann sagði það skipta máli að hafa í huga hvað raunlaun á Íslandi hafa hækkað gríðarlega og lífskjör hér aukist mjög hratt.
„Það er annað sem við gerum, við berum okkur saman við Skandinavíu þegar það hentar. Nú er staðan þannig að lífskjör á Íslandi eru mun betri en í Noregi. Við erum með gríðarlega góð lífskjör og gríðarlega mikinn kaupmátt sem við erum með í þessu landi sem meðal annars sést líka í því hvað mörg störf hafa skapast en það má deila um það hvort þetta séu þau störf sem við viljum sjá. Mikið af þessu er auðvitað ófaglærð störf í ýmsum greinum,“ sagði Ásgeir og bætti við að hámenntað fólk á Íslandi hafi í raun ekki fengið launahækkun í áratug.
Ásgeir ítrekaði fyrri orð um að Íslendingar væru of duglegir í að velja það sem þeim hentar þegar það kemur að samanburði við útlönd.
„Síðan fær maður alltaf þessa spurningu: Af hverju eru vextirnir alltaf miklu hærri á Íslandi en annars staðar? Án þess að tengja við neitt annað, hagvöxt eða neitt annað.“
Ásgeir sagði það yrði að hafa í huga að verðbólga á Íslandi væri mjög ólík þeirri verðbólgu sem herjar á Evrópu.
Miklar hækkanir á orkuverði ráku verðbólguna áfram í Evrópu og hefði staðan getað orðið mun verr eftir að Rússar skrúfuðu fyrir gasið frá Síberíu eftir innrás sína í Úkraínu.
„Rússar reiknuðu með því að Evrópa myndi lenda á mjög köldum klaka en næsti vetur var mjög hlýr þannig verðbólga hefði getað hækkað miklu meira,“ sagði Ásgeir.
„Hjá okkur var þetta ekki orkuverðsverðbólga. Verðbólga á Íslandi hækkaði síðar en hefur verið miklu þrálátari því verðbólga á Íslandi stafar af launaþrýstingi meira og minna,“ sagði Ásgeir.