Verðbólga á Spáni hjaðnaði úr 3,5% í 3,2% á milli október og nóvember. Um er að ræða í fyrsta sinn frá því í júní sem verðbólga á Spáni dregst saman. Reuters greinir frá.

Verðbólgutölurnar voru undir spám greiningaraðila í könnun Reuters sem áttu að jafnaði von á að hún yrði í kringum 3,7%.

Í tilkynning Hagstofu Spánar segir að ódýrara eldsneyti og verðlækkun á þjónustu við ferðamenn hafi átt stóran þátt í hjöðnun verðbólgunnar. Jafnframt hafi aðrir liðir á borð við raforku- og matvælaverð stuðlað að lækkun ársverðbólgunnar.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 4,5% í nóvember, samanborið við 5,2% í október, og hefur ekki verið minni frá því í apríl 2022.