Verðbólga í Bandaríkjunum hækkaði í nóvembermánuði en samkvæmt The Wall Street Journal sýnir þetta að baráttunni er hvergi nærri lokið.
Ársverðbólga mældist 2,7% í mánuðinum sem er hækkun úr 2,6% frá mánuðinum á undan. Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 3,3% á ársgrundvelli.
Í skýrslu vinnumálaráðuneytis Bandaríkjanna segir að neytendur séu bjartsýnir á efnahaginn og hefur neysla aukist milli mánaða. Vinnumarkaðurinn er enn mjög öflugur vestanhafs en 227 þúsund ný störf urðu til í nóvembermánuði.
Bandaríski seðlabankinn hefur lækkað vexti um 0,75% frá því í september og eru stýrivextir bankans nú í 4,5% til 4,75%.
Næsta vaxtaákvörðun seðlabankans verður 18. desember en um er að ræða síðustu vaxtaákvörðun bankans áður en Donald Trump tekur við forsetaembættinu í janúar.