Verðbólga á evrusvæðinu mældist 10% í nóvember, samkvæmt gögnum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er í fyrsta skipti í sautján mánuði sem verðbólgan minnkar milli mánaða.
Orka og matvæli er áfram stærsti þátturinn í verðbólgunni í Evrópu. Minni verðbólga skýrist aðallega af því að dregið hefur úr hækkunum á orkuverði.
Orkuverð hækkaði um 34,9% á milli ára í nóvember. Til samanburðar hækkaði orkuverð um 41,5% í október.
Markaðir gera ráð fyrir því að stýrivextir verði hækkaðir um 50 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi í desember.