Verðbólga á ársgrundvelli mældist 2% í júnímánuði og er óbreytt milli mánaða samkvæmt nýjum tölum frá bresku hagstofunni en The New York Times greinir frá.
Verðbólgan helst því í verðbólgumarkmiði Englandsbanka en samkvæmt hreyfingum á peningamörkuðum telja fjárfestar um 50% líkur á vaxtalækkun í byrjun ágúst.
Sumarútsölur sem og matarverð höfðu áhrif til lækkunar á verðbólgu en gríðarleg hækkun á hótelgistingu hafði afar neikvæð áhrif á verðbólguna í júní.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 3,5% í júní.
Verðbólga í þjónustu- og gistingu hélst óbreytt í 5,7% í júní en hagfræðingar höfðu spáð lækkun milli mánaða.
Hótelgisting hafði sérstaklega neikvæð áhrif og hækkaði um 9% milli mánaða og er tónleikaferðalagi Taylor Swift um Bretlandseyjar kennt um.
Swift hélt alls 10 tónleika í Bretlandi í júnímánuði og mun hún snúa aftur til Bretlands í ágúst þar sem hún heldur meðal annars fimm tónleika á Wembley leikvanginum sem tekur um 90 þúsund manns í sæti.
„Það er afar líklegt að það séu Taylor Swift áhrif hérna,“ segir Sanjay Raja, aðalhagfræðingur Deutsche Bank í Bretlandi, í skýrslu frá bankanum.
Greiningardeild TD Securites segir mjög líklegt að tónleikaferðalag Swift hafi haft áhrif á verð á þjónustu en vildi ekki ganga svo langt að segja hún bæri ábyrgð á hærra verði á hótelgistingu.