Verðbólga á evrusvæðinu jókst lítillega á milli mánaða og mældist 2,6% í júlí samanborið við 2,5% í júní. Verðbólgan mældist yfir spám hagfræðinga sem tóku þátt í könnun Reuters sem áttu að jafnaði von á að hún yrði óbreytt í 2,5%.
Verðbólga jókst í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu, þremur stærstu hagkerfunum á evrusvæðinu. Aukin verðbólga á evrusvæðinu gerir það að verkum að markaðsaðilar telja minni líkur á að Seðlabanki Evrópu lækki stýrivexti í september.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, var óbreytt í 2,9% og var aðeins yfir væntingum hagfræðinga sem áttu von á smávægilegri hjöðnun kjarnaverðbólgunnar.
Árshækkun þjónustuliðarins í vísitölu neysluverðs dróst saman og mældist 4,0% samanborið við 4,1% í júní. Lækkun þjónustuliðarins á ársgrunni gerir það að verkum að það sé enn líklegra en ekki að Seðlabanki Evrópu lækki vexti í september að mati hagfræðings hjá Capital Economics sem WSJ ræddi við.