Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði meira en búist var við í síðasta mánuði og eru því merki um að baráttan gegn verðbólgunni þar í landi hafi staðnað. Hækkunin var svipuð í febrúar samkvæmt Reuters.

Hækkandi kostnaður vegna eldsneytis, húsnæðis, veitinga og fatnaðar leiddi til þess að ársverðbólga jókst um 0,3% milli mánaða en verðbólgan mældist 3,5% í mars, samanborið við 3,2% í febrúar og 3,1% í janúar.

Sérfræðingar hafa varað við því að ef yfirvöld ná ekki að hægja á verðhækkunum í Bandaríkjunum muni seðlabankinn neyðast til að halda vöxtum háum. Meginvextir seðlabankans eru nú á bilinu 5,25%-5,5% og hafa ekki verið jafn háir í tvo áratugi.

Markaðsaðilar gerðu áður ráð fyrir að bandaríski seðlabankinn myndi byrja að lækka vexti í júní en þeir reikna nú með að ekkert verði af vaxtalækkunum fyrr en í september. Þá reikna þeir aðeins með tveimur vaxtalækkunum í ár en ekki þremur.

Greint var frá því í síðustu viku að atvinnuleysi í Bandaríkjunum hafi farið úr 3,9% í febrúar niður í 3,8%. Matvælaverð hefur hins vegar haldist óbreytt. Sérfræðingar segja að nýjustu tölur bendi ekki endilega til þess að ástandið verði svipað út árið en að þær dragi virkilega úr líkum á einhvers konar vaxtalækkunum á næstu mánuðum.