Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði um 0,4% milli mánaða í desember og mældist verðbólga á ársgrundvelli 2,9.
Mun það vera hækkun fjórða mánuðinn í röð en ársverðbólgan mældist 2,7% í nóvembermánuði.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, lækkaði og mældist 3,2% á ársgrundvelli.
Hagfræðingar höfðu spáð því að kjarnaverðbólga yrði óbreytt milli mánaða í 3,3%. Það að kjarnaverðbólga hafi hjaðnað gefur einhverja von að vextir verði lækkaðir í lok mánaðar.
Vinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna birti vinnumarkaðstölur síðastliðinn föstudag sem sýndu að efnahagur landsins væri enn sjóðheitur er 256 þúsund ný störf bættust við.
Var það mun meira en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um en samkvæmt The Wall Street Journal setja verðbólgu- og vinnumarkaðstölurnar vaxtalækkunarferli seðlabankans í uppnám.
Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans er 29. janúar en samkvæmt WSJ er nær útilokað að vextir verði lækkaðir á fundinum.