Greining Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans spá því að tólf mánaða verðbólga minnki úr 4,2% í 3,9% milli mánaða og fari þannig inn fyrir 4% efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka í mars. Það yrði í fyrsta sinn sem verðbólgan væri innan vikmarka Seðlabankans frá því í desember 2020.

Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% í mars og Landsbankinn gerir ráð fyrir 0,54% hækkun milli mánaða. Bankarnir rekja þá hækkun að mestu leyti til þess að vetrarútsölur gangi til baka að fullu og að flugfargjalda hækki í aðdraganda páska.

Bráðabirgðaspá Greiningar Íslandsbanka gerir ráð fyrir að ársverðbólgan verði óbreytt í 3,9% í apríl en lækki svo niður í 3,6% í maí. Í haust sé þó útlit fyrir að árstakturinn hækki „lítið eitt á ný“ þegar áhrif niðurfellinga skólagjalda í fyrrahaust detta út úr tólf mánaða verðbólgumælingunni.

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga verði 3,9% í mars, 4,1% í apríl og 3,9% í bæði maí og júní. Hún rekur spá sína um hækkun ársverðbólgunnar í apríl til þess að páskarnir falla nú alveg í apríl, með tilsvarandi hækkun á flugfargjöldum til útlanda.

Kjarasamningar kennara gætu komið á launaskriði

Greining Íslandsbanka segir að nýgerðir kjarasamningar hins opinbera við kennara gætu haft áhrif á verðbólguþróun þegar fram í sækir þó þeir hafi eytt nokkurri óvissu sem að kjaradeilu þessara aðila sneri.

„Fyrsta kastið verða þó áhrifin væntanlega minniháttar og snúast fyrst og fremst um heldur meiri neyslugetu hjá þeim hluta launafólks og trúlega lítillega minna aðhald opinberra fjármála. Með tímanum gæti þó launaskrið á vinnumarkaði almennt aukist fyrir vikið og síðast en ekki síst hefur óvissa um hvað tekur við í lok samningstímabils núverandi samninga vaxið að okkar mati.“