Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,60% á milli september og október og hefur nú hækkað um 7,9% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan hjaðnaði því um 0,1 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 8,0%.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,28% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 7,3% á síðastliðnum tólf mánuðum. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar án húsnæðis 7,7% í október.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að verð á matvöru hafi hækkað um 1,0% á milli mánaða og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, hækkaði um 2,0%. Verð fyrir tómstundir og menningu hækkaði um 1,0%.

Hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir í verðbólguspá sem gefin var út 12. október að vísitalan myndi hækka um 0,1% á milli mánaða og mælast 7,6%. Eftir að HMS birti nýjar tölur yfir vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu færði Landsbankinn verðbólguspá sína fyrir októbermánuð upp í 7,8%.

Í verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka, sem birt var eftir að tölur HMS urðu opinberar, var spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,7% í október og yrði því um 8,0%.

Vísitalan hækkaði meira en við gerðum ráð fyrir við gerð verðbólguspár fyrir októbermánuð og því færum við hana upp og spáum nú 7,8% ársverðbólgu í stað 7,6%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað á fundi sínum í byrjun þessa mánaðar að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 22. nóvember næstkomandi.