Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 6,0% í febrúar samanborið við 6,4% í janúar. Um er að ræða áttunda mánuðinn í röð sem verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnar.
Verðbólgutölurnar, sem voru birtar fyrir skemmstu, voru í samræmi við spár hagfræðingar í skoðanakönnun Reuters sem áttu von á að verðbólgan myndi hjaðna niður í 6,0%. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,4% á milli mánaða.
Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 5,5% í febrúar, samanborið við 5,6% í janúar. Hagfræðingar í skoðanakönnun Reuters áttu einnig von á að kjarnaverðbólgan myndi hjaðna niður í 5,5%.
Í umfjöllun Financial Times segir að verðbólgutölurnar séu birtar á krefjandi tíma fyrir Seðlabanka Bandaríkjanna sem opnaði á lánalínur til bandaríska banka um helgina til að aðstoða þá við að styrkja lausafjárstöðu sína í ljósi falls Silicon Valley Bank og Signature Bank.
Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur þann 1. febrúar síðastliðinn og eru þeir nú á bilinu 4,5%-4,75%. Næsta vaxtaákvörðun bankans er í næstu viku.
Í síðustu viku taldi markaðurinn líklegast að bankinn myndi hækka vexti um 0,5 prósentur en í kjölfar falls bankanna tveggja eiga flestir von á að bankinn hætti vexti um 0,25 prósentur eða haldi þeim óbreyttum.