Verðbólga í Bandaríkjunum jókst úr 2,4% í 2,7% milli maí og júní síðastliðins, samkvæmt nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna.

Verðbólgumælingin var í samræmi við spár hagfræðinga sem tóku þátt í könnun The Wall Street Journal. Greinendur í könnun Bloomberg höfðu gert ráð fyrir 2,6% verðbólgu í júní.

Kjarna­verðbólga, sem undan­skilur sveiflu­kennda vöru­flokka í mat­væla- og orku­geiranum, lækkaði og mældist 2,9% og var einnig í samræmi við spár.

Erlendir viðskiptamiðlar setja aukna verðbólgu í samhengi við tolla ríkisstjórnar Donalds Trumps. Tilkynnt var um 10% tolla í byrjun apríl og Bandaríkjaforsetinn hefur boðað að tollar á einstök lönd taki gildi 1. ágúst næstkomandi. Hann hefur jafnframt hótað tollum á einstakar atvinnugreinar.

Í umfjöllun WSJ segir að nýlegar hótanir Trumps hafi ekki áhrif á júnímælinguna en gætu haft áhrif á verðlag til framtíðar. Hagfræðingar séu almennt sammála um að tollar hækki verðlag og dragi úr hagvexti, þótt óvíst sé hversu mikil áhrif tollastefnu ríkisstjórnarinnar verða.

Mörg fyrirtæki hafi flýtt innkaupum og aukið birgðahald áður en tollarnir tóku gildi svo að auðveldara yrði að koma í veg fyrir verðhækkanir til viðskiptavina.