Verðbólga í Bretlandi hjaðnaði um 0,1 prósentustig milli mánaða og mældist 2,5% í desember. Verðbólgan mældist því undir spám hagfræðinga sem höfðu gert ráð fyrir að hún yrði óbreytt milli mánaða.
Undirliðir vísitölu neysluverðs fyrir verð á hótelum og veitingastöðum höfðu áhrif til lækkunar á vísitölunni í síðasta mánuði.
Í umfjöllun Financial Times er verðbólgumælingin sögð létta á þrýstingi á Rachel Reeves, fjármálaráðherra Bretlands, en fjármögnunarkostnaður ríkisins hefur hækkað umtalsvert upp á síðkastið, m.a. vegna ótta um að breska hagkerfið gæti verið að horfa fram á tímabil af kreppuverðbólgu (e. stagflation).
Hagfræðingar gera þó áfram ráð fyrir að verðbólgan muni aukast aftur á næstu mánuðum, m.a. þar sem sveiflukenndir liðir á borð við flugfargjöld lituðu verðbólgutölurnar fyrir desembermánuð.
Verðlagning á afleiðumörkuðum gefa til kynna að markaðsaðilar telji nú 80% líkur á 25 punkta stýrivaxtalækkun hjá Englandsbanka í næsta mánuði, en til samanburðar töldu þeir líkurnar nær 60% fyrir birtingu verðbólgumælingarinnar.