Ársverðbólga í Danmörku mældist 2,4% í ágúst samkvæmt gögnum sem danska Hagstofan birti í morgun.
Mun það vera lækkun úr 3,1% í júlímánuði en verðbólga hækkaði milli júní og júlí sem var í fyrsta sinn í níu mánuði sem verðbólgan hækkaði.
Samkvæmt viðskiptablaði Jyllandsposten lækkaði verðbólgan í ágúst vegna verðlækkana á eldsneyti og gistiþjónustu. Vöruverð hefur lækkað að jafnaði um 0,5% á mánuði síðastliðið ár.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 4,2% í ágúst sem er lækkun úr 5,3% á milli mánaða. Verðlækkanir í gistiþjónustu og pakkaferðum erlendis eru að toga kjarnaverðbólguna niður samkvæmt finans.dk.
Verðbólgan hjaðnað úr 10,1% á 10 mánuðum
Verðbólgan í Danmörku náði hámarki í 10,1% í október í fyrra en hún hefur ekki verið lægri síðan í september 2021 þegar ársverðbólga mældist 2,2%.
Jeppe Juul Borre, aðalhagfræðingur Arbejdernes Landsbank, segir jákvætt að verðbólgan hafi fallið aftur í ágúst en það sýnir að hækkunin í júlí hafi verið einsdæmi.
Borre segir að nýbirtar tölur Hagstofunnar sýni að verðbólgan muni halda áfram að lækka út árið líkt og hún hefur gert næstum alla mánuði ársins hingað til.