Ársverðbólga í Danmörku mældist 0,9% í septembermánuði, sam-kvæmt mælingum dönsku hagstofunnar.
Mun þetta vera lækkun úr 2,4% í ágústmánuði en verðbólga í Danmörku hefur ekki verið lægri síðan í febrúar 2021.
Samkvæmt hagstofunni var mesta verðlækkunin á rafmagni, eldsneyti og gistingu.
Danir hafa nú náð 2% verðbólgumarkmiði danska og Evrópska Seðlabankans.
Palle Sørensen, aðalhagfræðingur Nykredit, fagnar verðbólgutölunum í samtali við Finans.dk.
„Verðbólgumælingarnar staðfesta enn og aftur að laun í Danmörku eru heppilega að hækka hraðar en verð. Þetta mun líklega hafa mikil áhrif á fjármál margra sem hafa fundið fyrir þrýstingi eftir sögulega kaupmáttarskerðingu í fyrra,“ segir Sørensen.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, féll úr 4,2% í 3,7% milli mánaða á ársgrundvelli.
Verðbólgan í Danmörku náði hámarki í 10,1% í október í fyrra en hefur hjaðnað hægt og rólega síðan þá.
Sofie Holme Andersen, aðalhagfræðingur AE, segir of snemmt að hrósa sigri í baráttunni við verðbólguna því enn séu ákveðnir undirliðir alltof háir. Hún fagnar hins vegar þeim árangri sem hefur náðst.