Ársverðbólga í Danmörku mældist 0,1% í október og hefur hún ekki verið lægri síðan í maí 2020.
Danir náðu verðbólgunni undir 1% í síðasta mánuði og mældist ársverðbólga 0,9% en lækkunina milli mánaða má rekja til lækkandi verðs á raforku, bensíni, húsgögnum og heimilisvörum.
Vöruverð í Danmörku hefur að meðaltali lækkað um 4,4% síðustu tólf mánuði samkvæmt dönsku Hagstofunni en Børsen greinir frá. Verðbólgan í Danmörku náði hámarki í 10,1% í október í fyrra en hefur hjaðnað hægt og rólega síðan þá.
Þjónusta hefur þó hækkað um 4,9% á ársgrundvelli en samkvæmt Hagstofunni má rekja hækkunina til hærra leiguverðs.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 3,3% í október sem er lækkun úr 3,7% í september.
Enn undirliggjandi verðbólguþrýstingur
„Kjarnaverðbólgan er klárlega á réttri leið. Þrátt fyrir að verðbólga muni aukast á næstu mánuðum,“ segir Allan Sørensen, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins í Danmörku.
Palle Sørensen, aðalhagfræðingur Nykredit, tekur í sama streng. „Verðbólgumæling dagsins eru góðar fréttir en það er undirliggjandi verðbólguþrýstingur. Lækkun kjarnaverðbólgunnar eru einnig góðar fréttir fyrir verðbólguna á komandi mánuðum,“ segir Palle.