Vísitala neysluverðs í Sviss hækkaði um 0,7% á milli janúar og febrúar og hefur nú hækkað um 3,4% á síðustu tólf mánuðum. Verðbólgan mældist yfir spám hagfræðinga í könnun Bloomberg sem áttu von á að hún yrði nær 3,1%.
Hækkun vísitölunnar er einkum rakin til hækkandi verðs á flugfargjöldum, pakkaferðum, bensíni og vaxandi leiguverði.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, jókst þriðja mánuðinn í röð og mældist 2,4%.
Verðbólga hefur hvergi verið minni meðal þróaðra ríkja en í Sviss á undanförnum mánuðum. Í umfjöllun Bloomberg segir að aukin verðbólga muni sennilega leiða til þess að Seðlabanki Sviss, sem hefur þegar hækkað vexti um 1,75 prósentur frá því í júní síðastliðnum, halda áfram á sömu braut.
Næsti fundur peningastefnunefndar bankans er boðaður þann 23. mars. Hagfræðingar í könnun Bloomberg spá því að bankinn hækki vexti um hálfa prósentu.