Verðbólga í Tyrklandi mældist 55,2% í febrúar samanborið við 57,7% í janúar. Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,2% á milli mánaða.
Um er að ræða fjórða mánuðinn í röð sem ársverðbólga dregst saman í Tyrklandi. Verðbólgutölurnar voru undir spám hagfræðinga í könnun Bloomberg sem áttu von á að hún yrði nær 55,7%.
Í umfjöllun Bloomberg segir þó að útgjöld ríkisins í kjölfar jarðskjálftanna skæðu í síðasta mánuði og lítið sem ekkert taumhald peningastefnunnar hjá Seðlabanka Tyrklands gæti þó leitt til þess að verðbólgan verði áfram há. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um hálfa prósentu, niður í 8,5%, í síðasta mánuði.
Ríkisstjórn Tyrklands hefur úthlutað um 100 milljörðum líra eða sem nemur 5,3 milljörðum dala í viðbragsaðgerðir og beinar peningaúthlutanir til fjölskylda í kjölfar jarðskjálftanna í byrjun febrúar. Talið er að allt að 50 þúsund manns hafi látið lífið.