Árs­verð­bólga í Banda­ríkjunum hélst nær óbreytt á milli júní og júlí­mánaðar sem gefur til kynna að verð­bólgu­þrýstingurinn í stærsta efna­hag heimsins sé farinn að gefa eftir.

Vísi­tala neyslu­verðs hækkaði um 0,2% á milli mánaða sem var í sam­ræmi við spár sem setur verð­bólguna í 3,2% sem er ör­lítil hækkun úr 3% frá því í júní.

Sam­kvæmt Financial Times er hækkunin innan skekkju­marka þar sem verð­bólgan í júlí 2022 mældist ó­venju lág. Þá sýna undirliggjandi flokkar í vísitölunni að verðbólguþrýstingurinn sé að hjaðna á mörgum vígstöðum.

Augu fjárfesta beinast nú að Jerome Powell seðla­banka­stjóra en peninga­stefnu­nefnd bankans sem kemur saman í septem­ber. Vonast margir eftir því að nefndin ákveði að halda stýri­vöxtum ó­breyttum.

Kjarna­verð­bólga, sem undan­skilur sveiflu­kennda sveiflu­kennda vöru­flokka í mat­væla- og orku­geiranum, hækkaði um 0,2% sem er sam­bæri­legt og milli maí og júní.

Kjarna­verð­bólgan er því 4,7% á árs­grund­velli í júlí sem er á pari við júní­mánuð. Verð­bólgan í Banda­ríkjunum náði há­marki í 9,1% síðasta sumar en seðla­bankinn hefur hægt og ró­lega verið að nálgast tveggja prósentu verð­bólgu­mark­mið sitt.