Verðbólga á evrusvæðinu hjaðnaði annan mánuðinn í röð og mældist 9,2% í desember síðastliðnum samanborið við 10,1% í nóvember. Verðbólgan var undir væntingum hagfræðinga, sem áttu von á að hún yrði nær 9,5% samkvæmt könnun Bloomberg.
Ársverðbólga á Evrusvæðinu mældist 10,6% í október en hún hefur aldrei verið meiri frá því að evran varð til árið 1999.
Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, jókst hins vegar frá fyrri mánuði og náði nýjum hæðum í 5,2% í desember, sem gefur til kynna að áfram sé töluverður verðbólguþrýstingur.
Seðlabanki Evrópu hækkaði vexti um hálfa prósentu í síðasta mánuði og standa þeir nú í 2,0%. Franski seðlabankastjórinn, Villeroy de Galhau, sagði í gær að Seðlabanki Evrópu myndi halda áfram að hækka vexti á næstu mánuðum til að draga úr undirliggjandi verðbólguþrýstingi.