Tæplega 55% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni taka ákvörðun um að lækka vexti um 25 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans síðar í vikunni, þann 19. mars.
Könnunin var send á 271 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudaginn í þar síðustu viku og bárust 106 svör sem jafngildir 39% svarhlutfalli.
Verðbólgan á niðurleið
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,91% á milli janúar og febrúar og stóð í 4,2% á ársgrundvelli í febrúar sl. Verðbólga á ársgrundvelli hefur ekki mælst minni í fjögur ár, eða síðan í febrúar 2021 þegar hún stóð í 4,1%. Án húsnæðisliðarins hækkaði vísitalan um 1,06% milli mánaða og mældist hækkunin 2,7% á ársgrundvelli.
Í könnun Viðskiptablaðsins meðal markaðsaðila sem birt var í byrjun árs kom fram að meirihluti þátttakenda átti von á því að verðbólgan yrði lægri en 4% í lok árs 2025. Í nýjustu könnun blaðsins eru niðurstöðurnar keimlíkar.
Að meðaltali spá þátttakendur könnunarinnar 3,9% verðbólgu í lok árs. Þannig spá 57% þátttakenda því að verðbólgan verði á bilinu 3% til 4% í lok árs. 35% svarenda telja að verðbólgan verði þrálátari og að hún verði á bilinu 4% til 5% í lok árs.
Á meðan tæp 5% telja að verðbólga verði komin nálægt markmiði í á bilinu 2% til 3% þá telja 4% þátttakenda að hún muni aukast á árinu og enda í á bilinu 5% til 6% í lok árs.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.