Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 2,9% í júlímánuði sem ætti að veita seðlabankanum svigrúm til þess að lækka vexti í september samkvæmt Financial Times.
Hagfræðingar vestanhafs höfðu spáð því að verðbólga yrði óbreytt í 3%. Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í orku- og matvælageiranum, lækkaði úr 3,3% í 3,2% milli mánaða.
Samkvæmt FT er líklegt að verðbólgutölum dagsins verði fagnað af forseta landsins, Joe Biden, en þrálát verðbólga hefur gert Demókrötum erfitt fyrir í ár.
Hingað til hefur peningastefnunefnd seðlabankans ekki viljað lækka vexti þrátt fyrir að verðbólgan hafi verið að hjaðna síðustu mánuði en nú eru þó merki um að hagkerfið sé að kólna og því taldar meiri líkur en áður.
Stýrivextir í Bandaríkjunum hafa verið óbreyttir í 5,25 til 5,5 prósent í meira en ár.
Atvinnuleysi jókst í júlímánuði og mældist 4,3% og sjá má á uppgjörum smávöruverslana að neytendur eru byrjaðir að halda að sér höndum.
Hagfræðingar vestanhafs segja að ef Seðlabankinn lækki ekki vexti bráðlega aukist líkurnar á efnahagssamdrætti verulega.
Jerome Powell seðlabankastjóri hefur hins vegar sagt opinberlega að Bandaríkin eigi að geta náð verðbólgunni niður í 2% markmið bankans án þess að það komi til samdráttar.