Árs­verð­bólga í Banda­ríkjunum mældist 2,9% í júlí­mánuði sem ætti að veita seðla­bankanum svig­rúm til þess að lækka vexti í septem­ber sam­kvæmt Financial Times.

Hag­fræðingar vestan­hafs höfðu spáð því að verð­bólga yrði ó­breytt í 3%. Kjarna­verð­bólga, sem undan­skilur sveiflu­kennda vöru­flokka í orku- og mat­væla­geiranum, lækkaði úr 3,3% í 3,2% milli mánaða.

Sam­kvæmt FT er lík­legt að verð­bólgu­tölum dagsins verði fagnað af for­seta landsins, Joe Biden, en þrá­lát verð­bólga hefur gert Demó­krötum erfitt fyrir í ár.

Hingað til hefur peninga­stefnu­nefnd seðla­bankans ekki viljað lækka vexti þrátt fyrir að verð­bólgan hafi verið að hjaðna síðustu mánuði en nú eru þó merki um að hag­kerfið sé að kólna og því taldar meiri líkur en áður.

Stýri­vextir í Banda­ríkjunum hafa verið ó­breyttir í 5,25 til 5,5 prósent í meira en ár.

At­vinnu­leysi jókst í júlí­mánuði og mældist 4,3% og sjá má á upp­gjörum smá­vöru­verslana að neyt­endur eru byrjaðir að halda að sér höndum.

Hag­fræðingar vestan­hafs segja að ef Seðla­bankinn lækki ekki vexti bráð­lega aukist líkurnar á efna­hags­sam­drætti veru­lega.

Jerome Powell seðla­banka­stjóri hefur hins vegar sagt opin­ber­lega að Banda­ríkin eigi að geta náð verð­bólgunni niður í 2% mark­mið bankans án þess að það komi til sam­dráttar.