Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum féll um 0,1% á milli nóvember og desembermánaða, samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna. Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði því sjötta mánuðinn í röð og mældist 6,5% í desember samanborið við 7,1% í nóvember.

Hjöðnun verðbólgunnar í desember má einkum rekja til 4,5% lækkun á orkulið vísitölunnar. Það skýrist meðal annars af 9,4% lækkun á bensínverði í mánuðinum.

Verðbólgutölurnar voru í samræmi við spár spám greiningaraðila sem áttu von á að verðbólgan myndi hjaðna niður í 6,5%, samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar Bloomberg.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 5,7% í desember, í samræmi við spár. Til samanburðar mældist hún 6,0% í nóvember og 6,3% í október.

Næsta vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna er boðuð þann 1. febrúar næstkomandi. Bankinn hækkaði stýrivexti í síðasta mánuði um hálfa prósentu og eru þeir nú á bilinu 4,25-4,5%. Hann er með til skoðunar að hægja á vaxtahækkunarferlinu og snúa sér aftur að hefðbundnari 0,25 prósentu vaxtabreytingum.