Verðbólga í Tyrklandi hjaðnaði úr 84,4% í 64,3% á milli nóvember og desember, samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Tyrklands. Ársverðbólga í Tyrklandi hefur ekki dregist hraðar saman í a.m.k. 22 ár, að því er kemur fram í frétt Financial Times.
Ársverðbólgan mældist undir spám hagfræðinga sem áttu von á að hún yrði 66,8%, samkvæmt skoðanakönnun hjá Reuters.
Hjöðnun ársverðbólgunnar í síðasta mánuði má að stórum hluta rekja til þess að tölur fyrir desember 2021 duttu út úr mælingunni en gjaldeyriskrísa í árslok 2021 jók kostnað innflutnings verulega.
Lækkun olíuverðs í desember stuðlaði einnig að minni verðbólgu en samgönguliður vísitölu neysluverðs lækkaði um 4,2% á milli mánaða.
Þrátt fyrir óðaverðbólgu lækkaði Seðlabanki Tyrklands stýrivexti úr 14% í 9% á nýliðnu ári. Líran, gjaldmiðill Tyrklands, tapaði 30% af verðgildi sínu en hefur náð meiri stöðugleika á undanförnum mánuðum eftir inngrip seðlabankans á gjaldeyrismarkaðnum.