Verðbólga í Bandaríkjunum jókst um 0,1 prósentustig milli mánaða og mældist 3,0% í janúar. Verðbólgumælingin var yfir spám hagfræðinga sem höfðu spáð því að verðbólgan yrði óbreytt í 2,9%.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, jókst um 0,1 prósentustig og mældist 3,3%.

Hagfræðingar höfðu spáð því að kjarnaverðbólgan myndi dragast lítillega saman milli mánaða og mælast 3,1%.

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, mun síðar í dag gefa vitnisburð fyrir þingnefnd annan daginn í röð. Hann tjáði öldungadeildarþingmönnum í gær að seðlabankinn að ekki væri þörf á hröðu vaxtalækkunarferli þar sem bandaríska hagkerfið stendur vel.