Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði um 0,3 prósentustig á milli maí og júní og mælist nú 3,0%. Verðbólgumælingin var undir spám hagfræðinga í könnun Bloomberg en flestir þeirra gerðu ráð fyrir að ársverðbólgan myndi mælast 3,1% í júní.
Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, dróst einnig saman milli mánaða og mældist 3,3% en hagfræðingar höfðu spáð 3,4% hækkun kjarnaverðbólgunnar á ársgrundvelli.
Krafa á bandarísk ríkisskuldabréf lækkaði og verð á framvirkum hlutabréfasamningum hækkaði eftir að verðbólgutölurnar voru birtar í hádeginu í dag.
Í umfjöllun Financial Times kemur fram að verðlagning á skuldabréfamarkaði gefi til kynna að markaðsaðilar telji nú tæplega 92% líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna lækki vexti í september. Til samanburðar voru líkurnar um 72% áður í aðdraganda birtingar verðbólgutalnanna.