Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst um 0,4 prósentustig frá fyrri mánuði, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5% milli mánaða.

Tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis jókst um 0,5 prósentur milli mánaða og mældist 3,2%.

Verðbólgutölurnar voru talsvert yfir spám greiningardeilda bankanna sem höfðu spáð því að verðbólga yrði á bilinu 3,8-3,9%.

Greining Íslandsbanka hafði spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,5% milli mánaða og að verðbólga yrði því 3,8% í júní.

Hagfræðideild Landsbankans og greiningardeild Arion banka höfðu báðar gert ráð fyrir að vísitalan myndi hækka um 0,56% milli mánaða sem hefði haft í för með sér að verðbólgan myndi fara upp í 3,9%.

Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er 20. ágúst næstkomandi. Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur, úr 7,75% í 7,5% við síðustu vaxtaákvörðun í þann 21. maí síðastliðinn.