Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% á milli nóvember og desember hefur nú hækkað um 4,8% á síðastliðnum tólf mánuðum samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Ársverðbólgan er óbreytt frá fyrri mánuði.

Verðbólgumælingin er í samræmi við spár greiningardeilda bankanna.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,37% milli mánaða og hefur nú hækkað um 2,8% á síðustu tólf mánuðum. Árshækkun vísitölunnar án húsnæðis jókst um 0,1 prósentustig milli mánaða.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, hafi hækkað um 0,5% milli mánaða og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 8,0%.

Spáðu 4,7-4,8% verðbólgu

Hagfræðideild Landsbankans hafði spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,35% milli mánaða og að ársverðbólga myndi hjaðna úr 4,8% í 4,7%. Greining Íslandsbanka og aðalhagfræðingur Kviku banka höfðu spáð því að vísitalan myndi hækka um 0,4% og að verðbólga yrði óbreytt í 4,8% í desember.

Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 5. febrúar næstkomandi. Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti úr 9,0% í 8,5% þann 20. nóvember síðastliðinn.