Bandaríska verslunarkeðjan 99 cents only stores hefur sótt um gjaldþrotavernd (e. Chapter 11 bankruptcy protection) aðeins nokkrum dögum eftir að tilkynnt var um að öllum verslunum keðjunnar yrði lokað og undið ofan af rekstrinum á næstu mánuðum.

Reksturinn hefur ekki staðið undir sér í mörg ár og meðal annars hefur verið gripið til þess ráðs að selja fasteignir félagsins og leigja þær af nýjum eigendum til að útvega lausafé. Verðlag hefur meira en þrefaldast vestanhafs frá stofnári félagsins.

Í umsókn félagsins um gjaldþrotameðferð kemur fram að eignir séu á bilinu 1 til 10 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem jafngildir 140 til 1.400 milljörðum Bandaríkjadala, en skuldir séu „á sama bili“.

Í tilkynningu vegna málsins greindu forsvarsmenn fyrirtækisins frá 61 milljónar dala „veðtryggðri ofurforgangs-gjaldþrotameðferðar-fjármögnun“ (e. senior secured super priority debtor-in-possession financing) sem ætlað er að tryggja að rekstrarlokin og eignasalan gangi smurt fyrir sig og fyrir þær eignir fáist sem hæst verð.

Verslunin hóf göngu sína árið 1982 og fyrstu áratugina bauð hún eins og nafnið gaf til kynna allar vörur á aðeins 99 sent eða minna, en síðar urðu sumar vörur verðlagðar hærra þótt grunnverðið væri áfram hið sama.