Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% á milli desember og janúar og hefur nú hækkað um 9,9% á ársgrundvelli. Verðbólgan jókst því um því um 0,3 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 9,6%. Verðbólgutölurnar voru talsvert yfir spám greiningardeilda bankanna sem áttu von á að hún yrði á bilinu 9,2%-9,4%.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,88% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 8,3% á síðastliðnum tólf mánuðum. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar án húsnæðis 7,5% í desember.
Í tilkynningu Hagstofunnar segir að verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 2,0% á milli mánaða. Hluti af þeirri hækkun skýrist af hækkun á mjólk, ostum og eggjum um 4,4%. Þá hækkaði áfengi og tóbak hækkaði um 5,5%, hitaveita hækkaði um 6,0%, nýir bílar hækkuðu um 9,8% og veitingar um 2,4%.
Árshækkun vísitölu neysluverðs fór síðast upp í 9,9% í júlí síðastliðnum en var síðast hærri í september 2009. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis hefur ekki verið hærri frá því í maí 2010.
Bankarnir áttu von á 9,2%-9,4% verðbólgu
Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans gerðu báðar ráð fyrir að verðbólgan myndi hjaðna um 0,2-0,4 prósentur í janúar. Spár þeirra gerðu ráð fyrir áhrifum útsala og lækkun á flugfargjöldum en á móti að gjaldskrár og opinber gjöld myndu hækka líkt og venjan er um áramót.
Greining Íslandsbanka spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,2% í janúar og að verðbólgan yrði því um 9,2% í janúar. Hagfræðideild Landsbankans átti von á 0,31% hækkun á vísitölu neysluverðs og 9,4% verðbólgu í janúar. Landsbankinn færði þó verðbólguspá sína niður í 9,3% eftir að greint var frá því að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í desember.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um samtals 4,0 prósentur í fyrra, síðast með 0,25 prósentu hækkun í lok nóvember. Stýrivextir standa nú í 6,0%. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er á miðvikudaginn í næstu viku, 8. febrúar.