Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði fimmta mánuðinn í röð og mældist í 7,1% nóvember en til samanburðar var hún 7,7% í október og fór hæst á þessu ári í 9,1% í júní. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,1% á milli mánaða.
Verðbólgan mældist undir spám greiningaraðila sem áttu von á að verðbólgan myndi hjaðna niður í 7,3%.
Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 6,0% í nóvember samanborið við 6,3% í október. Greinendur höfðu spáð því að kjarnaverðbólgan yrði nær 6,1%.
Næsta vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna er boðuð á morgun. Væntingar eru um að bankinn hækki stýrivexti um 0,5 prósentur eftir fjórar 0,75 prósentu hækkanir í röð.